top of page

Formáli að íslenskri útgáfu Guð er ekki dáinn

Daglegt líf gengur best þegar við vitum hvernig hlutirnir virka í raun og veru. Fólk sem er í hjónabandi er ánægðast þegar það sem sagt er skilst rétt og hjónin leitast við að mæta þörfum hvors annars. Bíllinn virkar best ef honum er ekið eins og hann er hannaður til og viðhaldi sinnt reglulega. Að sama skapi fer illa þegar við gerum eitthvað af vanþekkingu, t.d. ef við notum spjaldtölvu sem skurðarbretti eða bensín til að slökkva eld. Í stuttu máli sagt: Þekking er m.a. getan til að vinna með hluti á grundvelli þess hvernig þeir eru í raun og veru.

Kristin trú er ein leið til að skilja lífið og tilveruna. Ef kristin trú er rétt og sönn þá endurspeglar kristin heimssýn hvernig hlutirnir virka í raun og veru og skiptir því miklu máli fyrir líf okkar, alveg eins og það skiptir máli að slökkva eld með vatni en ekki bensíni.

Þessa bók má skilgreina sem trúvarnarrit. Trúvörn er ekki orð sem þarf að óttast. Leyfðu mér að útskýra. Á grísku (tungumáli Nýja Testamentisins) er apologia orðið yfir trúvörn. Þetta orð var notað af bæði Plató og Aristótelesi yfir það að rökstyðja gjörðir og skoðanir. Kristin trúvörn er að rökstyðja kristna trú.

Trúvörn er skilgreind þjónusta af Nýja Testamentinu þar sem rökhugsun, eftir leiðsögn Heilags Anda, er notuð til að aðstoða einlæga leitendur í því að vinna úr vantrú og vantrausti á Guði og tilgangi hans með mannkynið.

Trúvörn er ekki keppni í neinum skilningi þess orðs þar sem einhver vinnur en aðrir tapa. Nei, trúvörn er kærleiksrík þjónusta.(1)

Trúvörn snýst um að mæta þörfum þeirra sem vilja skilja hvað kristin trú er og vinna úr efa á heilbrigðan hátt með samtali af gagnkvæmri virðingu.

Í þessari bók er því haldið fram að séu staðreyndirnar rýndar á heiðarlegan hátt þá rökstyðji þær tilvist Guðs. Sá sem af einlægni vill vita hvernig hlutirnir virka í raun og veru mun sækjast eftir því að skoða fyrirliggjandi staðreyndir eins hlutlaust og mögulegt er. Í kjölfarið er svo tekin afstaða til staðreyndanna eða eins og í tilfelli þessarar bókar: Að sannfærast um það að Guð sé til eða ekki. Trú er einfaldlega að hafa sannfærst um eitthvað nægilega mikið til að breyta eftir því þegar við á.

Tíðarandinn kennir okkur að álíta þá sem efast klárari en þá sem trúa. Ég segi því við fólk: “Ef þú ætlar að vera efasemdarmanneskja þarft þú að trúa því sem þú trúir og efast um efa þinn, rétt eins og þú efast um það sem þú trúir og trúir því sem þú efast um.” Svona vex þekking. Við höldum þessu ferli áfram í samtölum við aðra, hlustum á góða ræðumenn, leitum svara og lesum bækur um það sem þarf að vita. Þetta getur tekið talsverðan tíma svo við gerum þetta í samfélagi með öðrum og deilum hvert með öðru því sem við erum að læra. Þess vegna er svo mikilvægt að samfélag okkar sé opið og að fólk, sérstaklega ungt fólk, sé hvatt til þess að viðurkenna og ræða efa sinn; það er gott að ræða efann. (2)

Því fleiri staðreyndir sem ég skoða, því sannfærðari er ég um að kristni er sönn. Það merkir til dæmis að kristni er rétt lýsing á því hver við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum, til hvers við erum hér og hvers virði við erum. Með því að nýta bæði vísindi og kristni öðlumst við góða þekkingu á því hvernig heimurinn varð til, hvernig hann verkar og hvernig tilvera okkar verkar í þessum heimi.

Ég býð heiðarlegar spurningar velkomnar og óttast þær ekki því ef kristni er sönn og rétt lýsing á raunveruleikanum (því hvernig hlutirnir eru í raun og veru) þá veit ég að það koma góð svör að lokum. Raunveruleikinn er einmitt það sem stendur eftir þegar aðrar hugmyndir hafa runnið sitt skeið á enda. Og ef kristni er ósönn vil ég sannarlega komast að því sem fyrst sömuleiðis.

Vandamálið er því ekki það að spyrja spurninga og hugsa rökrétt heldur þvert á móti. Ég hvet þig því til að lesa þessa bók án þess að vera búin(n) að ákveða niðurstöðuna fyrirfram. Veittu sjálfum/sjálfri þér þann munað að takast af einlægni á við þær spurningar sem bókin tekur á eins og:

  • Trúi ég á Guð? Ef ekki, hverjar eru meginástæðurnar fyrir því og hvernig komst ég að þeirri niðurstöðu?

  • Af hverju er ég hér?

  • Hvers vegna varð heimurinn til?

  • Hefur lífið einhvern tilgang og einhverja merkingu?

  • Hvernig útskýri ég tilvist lífsins?

  • Hver eða hvað ákveður hvað er rétt og hvað er rangt?

Ef enginn er nokkurn tímann tilbúinn að skipta um skoðun verður aldrei neinn framgangur á þekkingu í heiminum. Sá sem virkilega vill læra þarf því að hafa vissa auðmýkt gagnvart eigin afstöðu og hugrekki til að líta hlutlaust á staðreyndirnar eftir bestu getu.

Forsæti í Flóahreppi, júlí 2016

Ágúst Valgarð Ólafsson

Heimildaskrá

1. Dallas Willard, The Allure of Gentleness: Defending the Faith in the Manner of Jesus (New York: HarperCollins, Kindle Edition 2015), 17.

2. Sama rit, 27-28.

Efst á baugi
Nýtt
Geymsla
bottom of page